Nokkur verkefni

Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá því að Hringrás og forveri þess Sindri hófu söfnun og vinnslu brotajárns hefur fyrirtækið þróað ýmsar aðferðir sem stuðla að hagkvæmri endurvinnslu. Ráðist hefur verið í fjölda verkefna sem beinst hafa að því að hreinsa íslenska náttúru. Meðal þeirra verkefna sem Hringrás hefur tekið að sér eru þessi:

Niðurrif Rockville-ratsjárstöðvar Bandaríska hersins á Miðnesheiði.
Niðurrit ratsjárstöðvarinnar, tengdra bygginga, olíutanka, lagna og girðinga sem hófst í Nóvember 2005 tók fjóra mánuði. Þetta var eitt stærsta niðurrifsverkefni hérlendis til þess tíma. Öflugur tækjabúnaður Hringrásar, m.a. stórvirkar gröfur með klippum og annar sérhæfður búnaður ásamt mjög hæfum starfsmönnum gerði það að verkum að  verkið vannst mjög vel og verkaupi að vonum afar sáttur. Hringrás hafði áður annast niðurrif á öðru svæði í nágrenni Rocville auk fjölda annarra verkefna fyrir herinn t.d. niðurrif á gömlum ratsjárskermum á DYE 5 svæðinu.

Olíutankar fjarlægðir í Hvalfirði
Snemma sumars árið 2005 tók Hringrás að sér að fjarlægja 8 olíutanka sem staðsettir voru í botni Hvalfjarðar. Verkið var unnið fyrir Olíudreifingu ehf. Tankarnir sem voru komnir til ára sinna voru ryðgaðir og því til mikilla lýta í landinu. Hver tankur var 25 metrar í þvermál, 14 metrar á hæð og vóg um 130 tonn. Hér var því um að ræða á annað þúsund tonn af járni. Ryðgaðir tankarnir blasa því ekki lengur við þeim sem eiga leið um Miðsand í Hvalfirði heldur hefur sönn íslensk náttúrufegurð aftur tekið völdin.

Víkartindur rifinn
Í mars 1997 strandaði flutningaskipið Víkartindur á Háfsfjöru skammt austan Þjórsár í Rangárvallasýslu. Skipið sem var í eigu þýskra aðila var flutningaskip með 250 gáma í lest og á þilfari. Í gámunum voru um 2700 tonn af ýmis konar vörum sem voru metnar á um 500 – 700 milljónir kr.  Aðeins minni háttar mengun varð vegna strandsins þar sem náðist að dæla meginhluta olíunnar úr skipinu en stór hluti farmsins eyðilagðist. Innihald gámanna og leifar af sundurtættum gámum rak upp í fjörurnar. Hreinsun á rusli gekk nokkuð vel eftir að hún hófst en hún reyndist tímafrek og erfið. Hringrás tók að sér að fjarlægja skipið úr fjörunni. Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður gekk verkið vel og var lokið við að fjarlægja skipsflakið um 4.700 tonn í lok sumars 1997.

Mannvirki Saltverksmiðjunnar á Reykjanesi rifin
Haustið 2010 voru rifin þrjú mannvirki sem tilheyrðu Saltverksmiðjunni á Reykjanesi. Verkbeiðandi var Fiskverkunin Háteigur sem hugðist byggja verksmiðju til fiskþurrkunar á lóðinni. Verkið stóð yfir frá september til nóvember mánaðar. Mannvirkin þrjú sem voru rifin voru 1200 fermetra skemma, túrbínuhús saltverksmiðjunnar og hljóðdeyfistöð.