Fréttabréf Hringrásar 29. apríl 2013

Efni: 
Viðurkenningin Á grænni grein sett á fót
Verðmæti felast í flokkun úrgangs
Langlíf ljósakróna
ARMAR VINNULYFTUR: Framúrskarandi árangur með Prolong
Söfnun á rafhlöðum
Sparperur eru varasamar í almennu sorpi
Skilum betur tilbaka

 

Viðurkenningin Á grænni grein er sett á fót svo Hringrás geti verðlaunað þá sem eru til fyrirmyndar í umgengni og flokkun úrgangs

Fjöldi viðskiptavina Hringrásar sem flokka og endurvinna hefur fjölgað undanfarið ár. Hringrás hefur ákveðið að verðlauna þá sem standa sig einstaklega vel með því að veita viðurkenninguna: Á grænni grein. Viðurkenningin er eingöngu veitt þeim sem sýna frábæra frammistöðu í flokkun og endurvinnslu. Móttakendur hennar eru að mati Hringrásar fyrirmynd annarra í umhverfismálum. Hún er veitt af  umhverfis og öryggisstjóra Hringrásar.

Verðmæti felast í flokkun úrgangs

Tilgangur flokkunar er að minnka magn sem fer til brennslu og urðunar. Þau fyrirtæki sem flokka búa til verðmæti því flokkaður úrgangur er hráefni sem hægt er að nýta til endurvinnslu. Helstu flokkarnir eru:
Pappír
Nýr pappír er unnin úr þeim gamla.
Plast
Nýtt plast eða olía er unnin úr plasti.
Málmar
Mikið af nýjum tækjum, verkfærum og skartgripum eru búin til úr endurunnum málmum.
Spilliefni
Spilliefni eru ýmist endurunnin eða eytt, það fer eftir eðli þeirra.
Lífrænn úrgangur
Metan og áburður er unnin úr lífrænum úrgangi.
Skór og fatnaður
Nýr fatnaður og efni eru unnin úr gömlum fötum.

Dýrasta leiðin fyrir samfélagið til þess að losa sig við sorp er urðun. Hún eykur líkur á mengun og tekur mikið pláss.

 Langlíf ljósakróna

Hjónin Árni Jón Sigfússon arkitekt og Annetta Scheving grafískur hönnuður hafa hannað fallegar ljósakrónur úr hráefni sem flestir henda í ruslið. Einnota plastílát eru efniviðurinn. Eftir að búið er að nota plastglösin eru þau þvegin og fest saman á ákveðinn hátt þannig að það myndast stór kúla. Ljós er útbúið innan í kúlunni. Þau hafa nefnt það Ljósmál. Myndir segja meira en mörg orð, að ofan er mynd af listaverkinu ásamt hönnuðum báðum.

Þessi hugmyndaglöðu hjón lærðu í Stuttgart í Þýskalandi þar sem endurvinnsla og endurnýting er mikið stunduð. Eftir námið höfðu þau tamið sér ákveðið hugarfar. Árni hafði orð á því hve vandað og dýrt efni væri notað í umbúðir og því synd að henda þeim beint í ruslið. Hann minntist á að fyrsta skrefið í áttina að hreinna umhverfi og endurbættri endurvinnslu væri að minnka flækjustig umbúða og einfalda, þannig að auðveldara sé að endurvinna þær.

ARMAR VINNULYFTUR: Framúrskarandi árangur með Prolong

„Við hjá ARMAR Vinnulyftum höfum notað Prolong SPL100 í um 7 ár á verkstæði okkar með framúrskarandi árangri. Tæringar og rakavörn efnisins er gríðarleg sem hefur sannast á raftengjum, rofum, snertum og þess háttar í vélum okkar. Notum við efnið í alla rofa, stjórntæki, svissa og lamir/læsingar ásamt mörgu öðru. Efnið virkar sömuleiðis mjög vel á ryðgaða bolta og skrúfur. Höfum við einnig mjög góða reynslu af EP-2 koppafeitinni frá Prolong. Við mælum hiklaust með vörum frá Prolong.“

Bjarni Þorgilsson,
Verkstæðisformaður
Armar Vinnulyftur

Söfnun á rafhlöðum

Söfnunarbaukar Hringrásar fyrir rafhlöður eru aðgengilegir á öllum starfstöðvum Olís, mörgum grunnskólum og –öllum starfsstöðvum Hringrásar fólki að kostnaðarlausu.

Sparperur eru varasamar í almennu sorpi

Hringrás Endurvinnsla og aðrir mótttökuaðilar fyrir spilliefni taka við sparperum. Sparperur innihalda kvikasilfur og mega alls ekki fara í almennt sorp. Við urðun getur kvikasilfrið mengað jarðveg og vatn. 

Skilum betur til baka

Er eitt af slagorðum Hringrásar. Það hvetur Íslendinga til að skila til baka ónýtum hlutum svo hægt sé að endurnýta hráefnið og koma því aftur inn í hringrás notkunar gegnum endurvinnslu.