Endurvinnsla

Eftir að bifreiðaeigandi hefur fengið skilavottorð fyrir bifreið sína taka starfsmenn Hringrásar við henni og undirbúa hreinsun spilliefna til endurvinnslu.

Öllum spilliefnum sem skilin eru frá bifreiðinni er safnað í sérstaka gáma og þau send viðurkenndum, sérhæfðum endurvinnslufyrirtækjum til endurvinnslu eða til förgunar á löglegan hátt samkvæmt umhverfislögum.

Rafgeymar
Eitt helsta spilliefni í bifreiðum eru rafgeymar. Þeir eru að stærstum hluta gerðir úr plasti (polypropylene) og blýi. Hulstrin eru notuð í framleiðslu á nýjum rafgeymum og blýið er endurunnið í nýjar blýplötur og aðra rafgeymahluta. Fullvinnsla á blýinu fer fram erlendis. Plast úr rafgeymum sem og annað plast sem hentar, er tætt niður í tætara og þvegið og að því búnu selt sem plastkurl til endurvinnslu.

Olíusíur og smurolía
Notaðar olíusíur eru meðhöndlaðar þannig að málmurinn er skilinn frá olíunni. Olían fer síðan með annarri úrgangsolíu í endurvinnslu og málmurinn fer einnig í endurvinnslu.

Dekk
Árlega eru framleidd um 50 milljón dekk í heiminum sem eiga uppruna sinn í 70.000 tonnum af endurunnum dekkjum.

Þessu til viðbótar eru nokkrar aðrar leiðir til að endurnýta notuð dekk. Notuð dekk eru kurluð og notuð í yfirborð á íþróttaleikvöngum og til endurbóta á vegum. Hringrás hefur hafið vinnslu gúmmís úr dekkjum í lokahráefni, með nýjum og fulkomnum tækjabúnaði. Einnig má nefna brennslu dekkja í sementsbrennsluofnum til orkunýtingar og sem byggingarefni á urðunarstöðum.

Úrgangsolía
Meirihluti  úrgangsolíunnar sem safnað er hérlendis, er hitaður til að minnka vatnsinnihaldið eða brennd til orkunýtingar. Það eru olíufélögin sem taka við úrgangsolíunni.

Vökvar
Bremsuvökvi, sjálfskiptivökvi, kælivökvi, rúðuvökvi og vökvi af vökvastýri

Þessum vökvum er safnað saman og fara þeir í sérhæfða endurvinnslu.

Eldsneyti
Úrgangseldsneyti sem safnast á svæðum Hringrásar er síað og og notað á tæki félagsins. Þetta eldsneyti dugar til að knýja 2 af bifreiðum félagsins.

Brotajárn
Afgangurinn af bifreiðinni er brotajárn og er settur í brotajárnspressu sem pressar nokkur bílflök saman í þétt pakkaðan kubb, um 1,5 x 1,5 x 1,5 metrar. Þessir kubbar eru fluttir erlendis til málmvinnsla sem breyta þeim í hráefni til frekari vinnslu þar sem málmurinn gengur í endurnýjun lífdaga.